Jói á móti og Valur Vals bíða hins óumflýjanlega
10. janúar 2016 - 16:47
Nýársfagnaður Molduxa

Nýársfagnaður Molduxa fór fram í gær í Tjarnarbæ, félagsheimili hestamannafélagsins Léttfeta. Fór skemmtunin vel fram þrátt fyrir stuttan, snubbóttan og áfengissnauðan undirbúning kvöldið áður. Flest allir Uxar mættu á svæðið með sínar Gilsbungur og óvenju kurteisa gesti og var það sérstaklega eftirtektarvert hvað Árni Egils var glæsilegur ásýndar með bláu höndina sína.

Eftir að gestir höfðu bragðað á sítrónulegnum flatfiski og hráu sauðakjöti í forrétt voru feðgarnir á grillinu þeir Geir Heljarmave og Ingó litli, pískaðir áfram til að gestir gætu sem fyrst bragðað á gómsætu lambafille með bestu sósu í heimi sem Árni annáll hafði mallað frá því á föstudagskvöldinu. Rétt áður en gestir náðu að kyngja síðasta bitanum var hátíðin formlega sett af foringja vorum Ágústi Guðmundssyni. Gat hann þess í ræðu sinni hve líkt væri komið á með Uxaskaranum og brennumönnum á Bergþórshvoli árið 1011 og tók áheyrendur með sér á vettvang í huganum. Lýsti hann þeim atburðum forðum með kjarnyrtri drápu að hætti hetja Íslendingasagnanna.

Þegar eftirréttinum hafði verið gerð skil hófst hin eiginlega dagskrá sem of langt mál er að lýsa hér en helstu atriði sem þarf að skrásetja eru að tveir kálfar voru teknir inn í Molduxana þeir Jóhann Guðmundsson humlasérfræðingur og Valur Valsson FabLabbari.

Framfarabikarinn að þessu sinni kom í hlut undirritaðs og á ég hann fyllilega skilinn.

Jóhann Sigmarsson úr Sæmundarhlíðinni fékk eindæma góða kosningu hjá Gilsbungum sem Kyntröll Molduxa. Var það einróma álit þeirra að hann hafi sýnt af sér þann þokka sem þarf til að heilla heilan flokk kynbomba.

Molduxi ársins, verðlaun sem Árni Annáll kom á laggirnar fyrir tveimur árum og veitti sálfum sér fyrstum, fór til litla risans, Friðriks Margeirs Friðrikssonar, en hann vann það afrek að koma saman rekstrarreikningi í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Þess skal einnig haldið til haga að annállinn hjá Árna var óvenju góður þetta árið þar sem allir fengu væna slettu af hugarkeytu hans.

Þá skal og geta hve glæsilegur drengjakórinn var undir stjórn Ingimundar kórstjóra og mátti heyra það á gestum hve hugfangnir þeir voru af flutningi hans.

Rúsínan í pylsuendanum var svo frábær tónflutningur Tríó Pilla Prakkó sem tók nokkur vel valin lög með heimasmíðuðum textum hljómsveitarstjórans sem og bassafantsins Vignis litla. Ágúst Guðmundsson trymbill og Margeir bróðir fylltu tríóið andagift og stöðuleika svo gestir tóku andköf.

Annað sem gerðist þetta kvöld er hulið þoku og verður ekki rifjað upp í þessum pistli utan það að Jói Sigmars er enn að efna til veislu fyrir Molduxa í tilefni fertugsafmælis síns sem og Sveinn Brynjar McLamont vegna giftingar sem hann lenti í fyrir nokkrum misserum síðan.

/Pilli

« Til baka

Skráðu þig á póstlista Molduxanna
© 2018 · Molduxar · molduxar[hja]molduxar.is