LÖG ÍÞRÓTTAFÉLAGSINS MOLDUXA


1. grein.


Félagið heitir Molduxar.  Heimili þess og varnarþing er á Sauðárkróki.

2. grein.

Tilgangur félagsins og félagsmanna er að iðka körfuknattleik af meira kappi en forsjá.  Enn fremur að auka samheldni liðsmanna jafnt innan vallar sem utan.

3. grein.

Aðalfundur skal haldinn árlega í marsmánuði.  Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins og kýs forseta félagsins.  Hann velur sér meðstjórnendur eftir eigin geðþótta.  Forseti félagsins fer með málefni þess á milli aðalfunda.  Forsetinn hefur algjört vald hvað varðar málefni félagsins og tekur ákvarðanir þar að lútandi.  Forsetanum ber að taka tillit til vilja liðsmanna, en ef í odda skerst, hefur forsetinn æðsta vald.

4. grein.


Æfingar skulu haldnar a.m.k. tvisvar í viku hverri.  Sú meginregla varðandi dómgæslu á æfingum skal vera sú að leikmenn þeir sem eru í sóknarleik hverju sinni, sjá um dómgæsluna.  Aðrir leikmenn né áhangendur hafa ekki tillögurétt.  Brjóti leikmaður regluna getur forsetinn vísað leikmanni þeim hinum sama af leikvelli og ber hinum seka að hlýða forsetanum undanbragðalaust.  Forsetinn getur kallað til aðstoðarmenn ef hinn seki veitir mótspyrnu.

5. grein.

Á æfingum félagsins skal leikhraði og leikgleði ávallt vera í fyrirrúmi.  Ennfremur skulu liðsmenn kappkosta að hafa í frammi hæfilega hörku og ruddaskap.  Alger agi skal ríkja á öllum æfingum félagsins, keppnisferðum svo og öðrum uppákomum.  Út á við skulu liðsmenn standa saman sem einn maður og skal framkoma þeirra utan vallar sem innan vera Molduxum til sóma og öðru æskufólki til fyrirmyndar.

6. grein.

Félagsfundir skuli haldnir ef 3/4 liðsmanna krefjast þess.  Þeir einir geta orðið liðsmenn í Molduxum sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:  Séu íslenskir ríkisborgarar, séu a.m.k. 1,70m á hæð og hafi vottorð frá kvenlækni um að þeir séu eðlilegir í öllu hátterni gagnvart hinu gagnstæða kyni.


Lög þessi samþykkt á aðalfundi félagsins
hinn 16. mars Anno Domini 1985.
Skráðu þig á póstlista Molduxanna
© 2019 · Molduxar · molduxar[hja]molduxar.is