Saga Molduxa

Óttar Bj. Bjarnason
Óttar Bj. Bjarnason

Skrifuð af stjórnarformanninnum Óttari Bjarkan Bjarnasyni

Félagsskapur Molduxanna hófst þótt ótrúlegt kunni að hljóma, með því að hópur áhugasamra ungra manna á Sauðárkróki fór að iðka knattspyrnu. Fljótlega varð ljóst að íþróttagreinin höfðaði ekki til hópsins sem bjó yfir mun meiri hæfileikum en fengu að njóta sín í þeirri grein s.s.hraði, snerpa og ekki síst skýr hugsun.  Þróaðist því félagsskapurinn fljótlega yfir í körfuboltafélag.

Fyrsti leikur hópsins undir nafni Molduxa fór fram á Siglufirði þar sem keppt var í fótbolta það herrans ár 1979. Um þær mudir voru margir ágætis menn í röðum félagsins s.s. Gestur Þorsteinsson, Simmi Guðmunds, Auðunn Hafsteinsson, Helgi Jónsson, Steini Birgis, Þórhallur Ásmundsson, Broddi Þorsteinsson, Reynir Barðdal, Guðmundur Guðmundsson og undirritaður Óttar Bjarkan Bjarnason ásamt fleiri góðum mönnum.

Um haustið 1979 hafði hópurinn alfarið snúið sér að körfubolta sem nýttist leikmönnum mun betur mtt. fyrrgreindra kosta og þá hættu einnig fljótlega þeir leikmenn sem ekki voru þessum kostum búnir og réðu ekki við tæknina í körfunni. Hér er átt við Gest, Brodda, Reyni Barðdal og Guðmund Guðmunds. Kallaðir voru til meintir hæfileikamenn á borð við Bigga Guðjóns, Kára Steindórs, Badda Ottós, Pálma Sighvats, Magga Valda og fleiri. Sumir þessara ágætu manna voru síðar reknir þar sem þeim var ómögulegt að skilja íþróttina og bæta kunnáttu sína.

Á þessum tíma fór Steini Birgis fyrir hópnum og naut þar stuðnings undirritaðs.  Ýmislegt mælti með Steina til starfans og skal þar fyrst telja uppruna hans. Steini er fæddur Siglfirðungur og einn af þeim fjölmörgu sem flutti til Sauðárkróks vegna ástar á skagfirskri yngismeyju. Síðar kom í ljós að þetta voru einu kostir hans og hann var gerður landrækur nokkrum árum síðar.  Steini var í nokkur ár í Danmörku en var þaðan sendur tilbaka og er nú vistaður á stofnun í Reykjavík (OR) sem þekkt er fyrir að takast á við vonlítil verkefni.

Árið er 1980 og einn af þeim gæfumönnum sem hefur spreytt sig í hópnum er Ágúst Guðmundsson. Fljótlega sýndi Ágúst þessi, mjög óvenjulega tilburði og stíl sem aðrir meðlimir hafa æ síðan reynt að tileinka sér. Foringjahæfileikar og góðar gáfur nýttust honum einnig vel til framfara og fyrr en varði hafði hann tekið öll völd í félagsskapnum og skipað sig - æviráðinn forseta félagsins ?  Til þeirra verka naut hann reyndar eindregins stuðnings undirritaðs sem berst fyrir því einu að halda nafnbótinni ?stjórnarformaður?. Um líkt leyti barst félaginu sending frá Keflavík. Á svæðið var mættur Geir Eyjófsson, körfuboltaséní sem aldrei hafði fengið að njóta sín á  Reykjanesinu af einhverjum ástæðum.

Segja má að á þessum tímapunkti hafi félagsskapurinn mótast í núverandi horf. Fram fóru nauðsynlegar hreinsanir og endurnýjun á mannskap. Ágúst Guðmundsson tryggði um ókomna tíð áhrif sín í félaginu með gerð Molduxalaganna þar sem kveðið er á um allt það sem prýða skal góðan Molduxa. Molduxalögin má nálgast á heimasíðunni. Við þessi tímamót, árið 1981, er formlega stofnun Molduxanna miðuð.

Eftir þessar breytingar stóð ekki á framförum. Hópurinn fór um haustið í keppnisferð til Sigló og malaði KS í fótbolta og körfu en Siglfirðingarnir höfðu betur í handboltanum.

Starfsemin óx mikið um þessar mundir og voru m.a. farnar æfingaferðir á Hóla þar sem keppt var við sveitamenn og nemendur Hólaskóla. Einnig var gjarna farið á Húnavelli og auk þess var reglulega tekið á móti gestum hér á Sauðárkróki. Á þessum tíma voru margir sterkir leikmenn í liði Molduxanna s.s. Baddi Ottós, Þórarinn Sólmundar, Forni, Helgi Jónsson, Biggi litli Guðjóns, Simmi Guðmunds og þarna voru einnig Þórhallur Ásmunds og Óli Begga en þeir gátu ekki mikið. Undirritaður og Ágúst voru að sjálfsögðu í mestu framförinni.

Það gerðist svo líklega á árunum 1983 ? 4 að Gústi ákvað að auka vegsemd sína hjá Kaupfélagi Skagfirðinga (svipað því sem gerðist hjá Palla Kolbeins mörgum árum síðar). Þá, hugsanlega af stjórnunarlegu innsæi, ákvað hann að bjóða lykilstarfsmönnum kaupfélagsins til æfinga og setti sér það markmið að bæta líkamlegt atgerfi þeirra og þar með afköstin á vinnustað sínum.  Á þessum árunum kom inn fjödi góðra manna og margir þeirra hafa reynst afar vel og eru enn virkir í starfi félagsins. Hér má nefna Árna Egilsson,  Simma Ámundar, Gumma Sveins, Pétur Ólafs, Magnús Einarsson, Sævar Hjartar, Frigga Jóns, Kristbjörn Bjarnason og Alla Munda.  Þessi hópur var lengi vel afar virkur og ekki voru teknir inn menn í félagsskapinn með viðurkenndum hætti í fjölmörg ár.

Enginn er eilífur segir máltækið og vegna búferlaflutninga og ófyrirgefanlegra brota á lögum félagsins, þ.e. brottrekstra, hefur annað veifið verið nauðsynlegt að taka inn nýja félaga. Næstu menn inn, árið 1991voru þeir Margeir Friðriksson og Ingimundur Guðjónsson. Stuttu síðar er Sigurður Ágústsson innlimaður og þar á eftir Atli Víðir Hjartarson og Páll Friðriksson.  Tveimur til þremur árum síðar koma svo Óskar Óskarsson, Valbjörn Geirmundsson og Páll Kolbeinsson. Nýjasti Molduxinn er Ásmundur Baldvinsson, tekin inn árið 2002.

Í gegn um tíðina hefur ríkt mikill metnaður innan félagsins og hafa félagsmenn ávallt  verið fyrstir liða að tileinka sér ný leikkerfi og nýja tækni. Til að tryggja þessa yfirburði hefur félagið stöku sinnum ráðið þjálfara en yfirleitt hafa þeir verið ráðnir til skamms tíma.  Meðal þjálfara sem félagið hefur haft eru nokkrir af virtustu þjálfurum síðari tíma s.s. Björn Sigtryggsson, Pálmi Sighvatsson, Dr. Milan Rosenik og Peter Jelic, Valur Ingimundarson og Óli Barðdal golfkennari m.m.

Molduxarnir hafa átt mikin þátt í uppbyggingu einstakra leikmanna sem náð hafa miklum árangri í íþróttinni. Þeir leikmenn sem hvað best hafa komið út úr þessu prógrammi eru td. Valur Ingimundarson sem einnig hefur verið gerður að heiðursfélaga Molduxanna, Óli Barðdal, Ómar Sigmarsson og Ingvar Ormarsson. Pálmi Sighvatsson hefur einnig verið gerður að heiðursfélaga Molduxanna fyrir framúrskarandi aðstoð við uppbyggingu á tæknisviði klúbbsins og greiðvikni innan vallar sem utan.

Í gegnum árin hafa keppnisferðir Molduxanna verið óteljandi og varla til það íþróttahús sem ekki hefur verið heimsótt. Lengi vel var mikið samneyti við Skallagrím, Húnavelli, Grindavík og Keflavík en mikið hefur dregið úr þrótti þeirra síðustu ár. Af þessum sökum höfum við heimsótt erlend og sögufræg íþróttafélög  reglulega. Meðal þeirra landa sem Molduxarnir hafa heimsótt eru: Holland, Danmörk, Króatía og Ítalía. Ýmsar greinar um ferðir félagsins á erlenda grundu má finna hér á heimasíðunni. Molduxarnir spila þó alltaf annað slagið við innlend félög s.s. Snæfell í Stykkishólmi, Skallagrím í Borgarnesi, Þór á Akureyri og KR. Svona til að halda sér í formi. 

Klúbburinn hefur einnig látið margt gott af sér leiða og gefið fé til líknarmála og til ýmiskonar uppbyggingar íþróttastarfssemi.

Félagsstarfsemi innan klúbbsins hefur verið ótrúlega öflug í gegnum tíðina og hafa Molduxafélagar vart haft tíma til að sinna öðru starfi.  Á hverju ári eru haldin þorrablót, nýjársfagnaðir, sviðaveislur, uppskeruhátiðir og auk þess eru reglulega haldnir almennir fundir og stöku koníaksfundir þess á milli.

Klúbbburin hefur starfrækt kór sem treður upp við hátíðleg tækifæri auk þess sem hljómsveitin Gómarnir hefur verið við lýði frá 1994. Hljómsveitin og kórinn flytja eingöngu frumsamið efni, enda margir hæfileikamenn innan félagsins sem hrist geta ljóð og lög frammúr erminni af minnsta tilefni.

Ekki verður annað séð en að þessi samheldni hópur eigi framtíðina fyrir sér og verði sem sem fyrr ungu æskufólki til fyrirmyndar um ókomna framtíð.

Molduxarnir lifi.

Óttar Bj. Bjarnason
Stjórnarformaður

Skráðu þig á póstlista Molduxanna
© 2019 · Molduxar · molduxar[hja]molduxar.is