Skallagrímsmót 2008

Hraðmót Old boy's Skallagríms 40 ára og eldri fór fram s.l. föstudagskvöld að viðstöddu fjölmenni í Íþróttamiðstöðinni Borgarnesi.

Mikil leikgleði og barátta einkenndi þetta mót nú sem áður enda þarna saman komnir kappar sem marga fjöruna hafa sopið í íþróttinni og þótt skrokkurinn svari ekki alveg eins hratt kallinu og áður þá er vilji og keppnishugurinn enn til staðar.

Þetta er í fimmta skipti sem mótið er haldið í Borgarnesi. Það eru alltaf sömu lið sem hittast þessa kvöldstund og taka þátt í mótinu en það eru Molduxar Sauðárkróki, Skallagrímur, Snæfelll, Valsmenn og Selfoss en Snæfellingar komust ekki því miður að þessu sinni á mótið.

Það voru Skallagrímsmenn og Molduxar sem spiluðu fyrsta leikinn og voru Molduxar mun betur stemmdir enda voru þeir komnir um hádegi í hús til undirbúnings og ekkert unnið á Króknum þennan dag. Þeir hittu úr öllum skotum og fór Valbjörn Geirmundsson á kostum þó svo að Skallagrímsmaðurinn Gísli Einarsson reyndi hvað allt tók að hemja hann og aðra í liði Molduxa. Úrslit 30-42 fyrir Molduxa.

Næsti leikur var Valur ? Selfoss og var það baráttuleikur að venju þegar þessi lið mætast. Valsmenn telfdu nú fram í fyrsta skipti Birgi Mikaelssyni og voru frískari í leiknum og unnu 37-20.

Næsti leikur, Skallagrímur ? Valur var jafn og spennandi. Skallagrímsmenn mættu vel stemmdir til leiks enda búnir að fá vakningu og útreið frá Molduxum í fyrsta leik. Liðið lék nokkuð betur saman í þessum leik og var jafnt á með liðunum en Valur seig fram úr á lokamínútum og vann 41-32.  

Molduxar og Selfoss spiluðu næst og var það bráðskemmtilegur baráttuleikur sem endaði 25 ? 20 fyrir Molduxa. Alli og Valbjörn sem fyrr í aðalhlutverki fyrir Króksara , frábærir leikmenn þar á ferð.

Skallagrímur mættu loksins tilbúnir til leiks á móti Símoni Ólafssyni og félögum frá Selfossi og var það hörkuleikur. Skallagrímsmenn nelgdu niður þriggja stiga körfur og gerðu sig líklega til að vinna leik en Selfossmenn voru seigari inn í teig og kláruðu leikinn 31-25 þar sem Helgi var þeirra besti maður ásamt Símoni.  

Hreinn úrslitaleikur mótsins lá þá fyrir en það voru Valsmenn og Molduxar og þegar þessi lið mætast er von á hörkuviðureign. Valbjörn fór fyrir Molduxum og Birgir Mikaels Valsmönnum og fór svo að leikurinn fór í framlenginu eins og allir alvöru leikir. Því miður fyrir Skagfirðinga þá fékk Valbjörn þeirra langsprækasti maður sína 4 villu    ( í þessu móti voru aðeins 4 villur leyfðar) í lok venjulegs leiktíma og sennilega hefur það riðið baggamunin fyrir Molduxa því Birgir, Hannes, Trausti og  Stefán S. saxafónleikari með meiru og félagar þeirra lönduðu sigri í mótinu annað árið í röð 45-37 í æsispennandi, kraftmiklum og skemmtilegum leik.

Hrósa ber Molduxum fyrir baráttu í þessum úrslitaleik og eru þeir greinilega í hörku formi og verður gaman að koma norður á Molduxamótið þeirra á Sæluvikunni í vor sem klárlega öll lið stefna að ef marka má umræður á eftir lokahófinu á Mótel Venus.

Verðlaunaafhending og lokahóf fór svo fram á Mótel Venus og var þar hlaðborð sem gott var að gæða sér á eftir erfiða leiki og spennu kvöldsins. Indriði hélt ræðu og þakkaði ungu fólki sem stóð sig vel á ritaraborðinu fyrir hjálpina og dómurum fyrir hálpina við framkvæmd mótsins þeim Kennieth Webb og Victor Rodriquez.   Góðum félaga úr Molduxum, Óskari S. Óskarssyni var vottuð virðing en þessi frábæri og leikglaði félagi lést langt fyrir aldur fram á síðasta ári.  Stóðu menn upp og minntust hans.  

Viðurkenningar kvöldsins:   Skemmtilegasti leikmaður kvöldsins var kjörinn Helgi Frammari  leikmaður Selfoss sem verður yngri með hverju árinu sem líður.

Besti vinur dómarans (eða mesti tuðarinn) var kjörinn unglambið í hópnum sem reyndar er á undanþágu að taka þátt í mótinu Trausti Jósefsson borgfirðingur með meiru.

Bjartasta vonin var kjörin Þórhallur Teitsson tæplega sextugur Skallagrímsmaður og þrátt fyrir að hafa ekki komið inn á í leikjum kvöldsins þá er þessi félagi okkar mikilvægur með myndavélina sína og á örugglega eftir að verða einn af burðarrásum Skallagrímsliðssins á næstu árum þrátt fyrir að vera tiltölulega nýbyrjaður að æfa.

Að lokum var Valsmönnum afhendur bikar mótsins til varðveislu í eitt ár og fóru þeir á kostum í afhendingunni þegar þeir sungu baráttulög og léku á alls kosti enda er svona mót haldið á gleðinótum yfirhöfuð þar sem allir skilja sáttir. Skallagrímur þakkar liðunum sem mættu fyrir frábæra kvöldstund og hlökkum til að sjá ykkur aftur að ári.

Texti. Indriði Jósafatsson.

Skráðu þig á póstlista Molduxanna
© 2019 · Molduxar · molduxar[hja]molduxar.is